140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Með fullri virðingu fyrir hinni ágætu frænku minni, hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, þá er það kannski ofsagt hjá hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur og Bjarna Benediktssyni að það séu stórtíðindi að hún vilji greiða atkvæði um aðildarumsóknina.

Ég er sammála hv. þingmanni um það að þegar nægilegar upplýsingar liggja fyrir, þegar umræða hefur farið fram um þetta mesta pólitíska mál sem við höfum átt í í marga áratugi, þá á þjóðin að eiga síðasta orðið, það er alveg klárt. Allir flokkar á Alþingi hafa sagt það. Það sem þvælist fyrir okkur er það hvenær upplýsingar liggja fyrir og það er ekkert nýtt að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir telji að upplýsingar liggi fyrir.

Þegar hún gerði grein fyrir hjásetuatkvæði sínu 16. júlí 2009, þegar meiri hluti þingmanna á þinginu greiddi atkvæði með umsókn, þá sagði hún, með leyfi forseta, að hún væri andvíg því að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu:

„Allra síst þykir mér heppilegt að fara í svo afdrifaríkt kostnaðarsamt og umdeilt ferli í þeim gríðarlegu efnahagsþrengingum sem nú steðja að og með svo klofna þjóð að baki.“ — Þetta er í sama dúr og bókanirnar í morgun.

Síðar í þessari greinargerð segir hún, með leyfi forseta:

„En við vitum í öllum megindráttum út á hvað aðild að ESB gengur. Við þekkjum aðildarsamninga annarra ríkja og ófrávíkjanleg skilyrði ESB. Því ætti þjóðin núna“ — af því að við þekkjum þetta — „strax að fá að segja sitt um leið og ég fagna því að sjálfsögðu að hún fái það einnig í lokin.“

Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir vissi þetta í júlí 2009, hún veit þetta enn í maí 2012, það eru sem sé engin tíðindi. Það erum við hin sem vitum það ekki.

Búið er að opna 15 kafla af 35. Það eru 20 kaflar eftir og það eru tveir aðalkaflarnir sem menn hafa talað um fram og aftur sem við vitum ekki hvaða niðurstöðu fá. Það er sjávarútvegskaflinn og landbúnaðarkaflinn. (Forseti hringir.) Ætlum við að ganga frá málinu áður en við fáum niðurstöðu í þessum tveimur helstu ágreiningsmálum, þessum tveimur punktum í Evrópusambandsmálinu, og eyðileggja það fyrir alla framtíðina? Guðfríður Lilja Grétarsdóttir vill það, hefur viljað það í þrjú ár. Ég vil það ekki.