140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

beiðni um skýrslu.

[14:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er hlutverk okkar þingmanna að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og við höfum ákveðin tæki til að kalla eftir upplýsingum, meðal annars höfum við tæki til að kalla eftir skýrslum. Ég vil vekja athygli á því, og fara fram á það við virðulegan forseta, að hann sjái til þess að lög og reglur sem um það gilda verði virt.

Ég fékk upplýsingar um það 7. maí að skýrsla sem ég bað um ásamt fleiri þingmönnum, um áhrif einfaldara skattkerfis og um áhrif lækkunar á höfuðstól húsnæðislána, kæmi þá í vikunni. Síðan komu þær upplýsingar í gær að það stæði bara alls ekki til og það eru 25 vikur frá því að beðið var um þessa skýrslu, 25 vikur. Hámarkstími er 10 vikur. Auðvitað má segja að ég sé bara í góðum málum því að ég veit að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er búinn að bíða, held ég, í eitt og hálft ár eftir því að skýrslan sem hann er 1. flutningsmaður að komi fram.

Ég fer fram á það, virðulegi forseti, að framkvæmdarvaldið og hæstv. ríkisstjórn fari í þessu eins og öðru eftir lögum og reglum.