140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:23]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú þegar menn hefja umræðu enn einn þingdaginn um þetta mál vil ég að það komi skýrt fram að ég tel að þessari umræðu sé löngu lokið efnislega og nú sé mál að linni þótt fyrr hefði verið. Ég veit að það sama á við um þá þingmenn sem hér hafa talað daga og nætur og farið hundrað sinnum í gegnum sömu atriðin. Það er athyglisvert að horfa til þess að sömu þingmenn og hér hafa haldið upp umræðunni undanfarna daga og vikur, hafa talað gegn málinu og fundið allt til foráttu þeim tillögum sem lagðar eru fram og reynt að gera lítið úr þeim og sagt að þær standist ekki kröfur og annað efni, þeir hafa samanlagt yfir 20 breytingartillögur, eða varatillögur eins og hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi í ræðunni á undan. Af þessum tillögum eru endalaus dæmi um hluti sem menn átta sig ekki á. Hér er til að mynda tillaga frá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og Ásmundi Einari Daðasyni þar sem segir, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði sem kveður á um rétt allra landsmanna til jafnra samgangna?“

Hvað eru jafnar samgöngur?

Önnur tillaga frá sömu aðilum, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði sem veitir ríkisvaldi heimild til framsals ákvarðana til annars stjórnvalds um nýtingu auðlinda?“

Um hvað snýst þessi spurning? Um hvaða stjórnvald er verið að ræða?

Enn önnur frá sömu aðilum:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði kveðið á um jafnrétti til búsetu?“

Hvað er jafnrétti til búsetu? Við getum haldið áfram að ræða þessi mál á þessum nótum, ég tala nú ekki um þær breytingartillögur sem fram komu frá formanni Framsóknarflokksins. Ég vil benda á það að þessi leikaraskapur sem ég vil nefna svo nær auðvitað engu tali. Það væri nær að menn reyndu að loka þessari umræðu og ná saman um þau lykilatriði og þær megináherslur sem skipta máli að fari fram í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu fyrst það er þá í það minnsta vilji (Forseti hringir.) stjórnarandstöðunnar þrátt fyrir alla umræðuna að það séu einhverjar varatillögur uppi á borði sem hugsanlega er hægt að taka inn í það þjóðaratkvæði sem við horfum til.