140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:27]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að við hv. þm. Birgir Ármannsson erum sammála um að flestallar þær tillögur sem hér hafa verið lagðar fram sem viðaukabreytingartillögur eru óljósar og óskýrar. Það þarf ekki að eyða frekari orðum í það.

Menn geta togast á um ákveðna hluti í þeim tillögum sem hér hafa verið kynntar en ég minni á að þær tillögur sem liggja fyrir í breytingartillögu frá meiri hluta stjórnskipunarnefndar voru samdar í fullu samráði við bestu aðferðafræðinga á þessu sviði og yfirlesnar og yfirfarnar af landskjörstjórn og fylgja bréf því til staðfestingar. Þeim var breytt og þær voru settar í þann búning að þær stæðust þær gæðakröfur sem gerðar eru til slíkra spurninga. Það er nákvæmlega það sem við þurfum að horfa til, við eigum ekki að vera í neinum leikaraskap eða fíflaskap í kringum þetta mikilvæga mál.

Ég vil hins vegar koma því að, vegna þess að ég hef ekki viljað taka þátt í þessari langhundaumræðu sem verið hefur í gangi og finnst hún síst af öllu til sóma fyrir Alþingi, að þegar upphaflegar tillögur voru lagðar fram voru þær lagðar fram á grunni þeirra helstu ágreiningsefna sem uppi voru og sem upp komu í vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar var að vísu einni spurningu haldið fyrir utan sem lýtur að hlut og þátttöku forsetans í stjórnskipuninni vegna þess að menn töldu ekki heppilegt að blanda þeirri spurningu inn í kosningar sem væntanlega yrðu haldnar 30. júní. Nú liggur fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla verður ekki á þeim tíma. Ég hef því verið þeirrar skoðunar að skoða eigi þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram af hálfu hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, Birgis Ármannssonar og Ólafar Nordal og finna orðalag á spurningu sem lýtur að þessum þáttum. Ég tel að þannig eigi að fullklára þennan lista og að Alþingi eigi síðan að afgreiða málið í sátt og með sóma.