140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að þetta komi fram. Það kemur mér ekkert á óvart sem kemur fram í orðum hv. þm. Birgis Ármannssonar, þ.e. að eðli málsins samkvæmt bera þessir fræðimenn ekki ábyrgð á þessum spurningum og eðli málsins samkvæmt er það ekki landskjörstjórn sem semur þessar spurningar. Það er augljóst að það eru hv. þingmenn stjórnarliðsins sem bera ábyrgð á þessum spurningum. Það er því mjög óþægilegt að hv. þingmenn skuli ekki vilja svara málefnalegum spurningum um það hvað spurningarnar þýða vegna þess að það er mjög erfitt að átta sig á því. Það er fullkomlega útilokað að átta sig á því hvernig eigi að vinna úr fyrstu spurningunni. Hún er:

„Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá …?“

Síðan eru já- og nei-valkostirnir. Því hefur ekki verið svarað hvernig menn nálgast það. Ef menn eru búnir að kynna sér þessar 115 greinar og eru mjög sáttir við hluta þeirra en mjög ósáttir við aðra, hvernig svara menn þeirri spurningu með já eða nei? Ef meiri hlutinn segir nei í atkvæðagreiðslunni þýðir það þá að ekkert megi nota úr tillögum stjórnlagaráðs? Er það þá bara þannig að ekki megi undir nokkrum kringumstæðum nota eina einustu grein úr drögunum í tillögum að nýrri stjórnarskrá? Segjum að það verði meira en 50% sem segi já. Hvað á þá að nota úr þessum tillögum? Þetta eru 115 greinar og það getur enginn haldið því fram að þessar spurningar séu skýrar. Það getur enginn haldið því fram að það sé alveg ljóst hvað á að gera með niðurstöðuna. Niðurstöðurnar verða marklausar alveg sama hvað kemur út úr þessari skoðanakönnun og ansi hætt við því að ákveðnir stjórnmálamenn túlki þetta eins og þá lystir.