140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þetta sé hárréttur punktur sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vekur athygli á að spurningarnar eins og þær eru fram settar — og það á ábyggilega við um margar af breytingartillögunum líka — veita harla takmarkaða leiðsögn hvort sem niðurstaðan verður já eða nei. Þegar spurt er: Vilt þú að persónukjör verði viðhaft í meira mæli en nú er? Og svarið er já — jú, það veitir lauslega vísbendingu en það gefur okkur ekki til kynna hvernig útfærslu fólk vilji. Sá var einmitt vandinn sem við stóðum frammi fyrir á þinginu á sínum tíma þegar við vorum að deila um frumvörp persónukjör.

Ekki var ágreiningur um það í þinginu, svo að ég rifji það upp, að rétt væri að auka vægi persónukjörs við þingkosningar eða kosningar til sveitarstjórna. Skoðanir voru mjög skiptar um útfærsluna. Það að spyrja þessarar spurningar um aukið vægi persónukjörs mun til dæmis ekki gefa okkur neina leiðsögn um það hvort menn séu sáttir við þá tillögu sem felst í tillögum stjórnlagaráðs eða þá útfærslu sem lesa má út úr tillögu stjórnlagaráðs um kosningar til Alþingis. Þó að svarið verði já við þessari spurningu í umræddum lista frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hvort menn vilji auka vægi persónukjörs ótilgreint, mikið eða lítið eftir atvikum, segir það okkur ekkert um það hvaða afstöðu fólk hefur til þess ákvæðis í tillögum stjórnlagaráðs sem lýtur að kosningum til Alþingis. Þar er reyndar aðeins farið hálfa leiðina í því að útfæra ákvæði um persónukjör en svarið við því sem hér er spurt sérstaklega um veitir okkur enga leiðsögn um það hvernig menn vilja meðhöndla það sem frá stjórnlagaráði kemur í þessum efnum.