140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mál sem tengist grundvelli stjórnskipunar okkar, þ.e. stjórnarskrána sjálfa, hvorki meira né minna. Öllum sem hafa fylgst með þessari umræðu er ljóst að ekki er búið að svara spurningum sem verður að svara áður en þetta mál er afgreitt. Það hlýtur að vekja athygli að hv. þingmenn stjórnarliðsins taka ekki þátt í umræðunni. Það hlýtur að vekja athygli að þeir neita að svara þeim spurningum sem hér koma fram. Ég fór þess vegna krókaleið áðan og spurði hv. þm. Baldur Þórhallsson hvort hann teldi að þessar spurningar væru skýrar og hvort þær væru þannig að allir mundu skilja þær eins. Hann svaraði því ekki beint en vísaði á bestu aðferðafræðinga landsins.

Það væri áhugavert að vita hvort hv. þm. Baldur Þórhallsson treystir sér til að svara spurningunni sem hann svaraði ekki áðan með já-i eða nei-i. Ef hann svarar með já-i er afskaplega mikilvægt að hann skýri það fyrir okkur hinum því að ég þekki engan sem telur að þessar spurningar séu skýrar.

Hv. þm. Birgir Ármannsson fór yfir ýmsa þætti málsins. Hann nefndi, í orðaskiptum við hv. þm. Lúðvík Geirsson, ákvæði um þjóðkirkjuna, þ.e. spurninguna: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? Hvað þýðir já við því? Það er ekki greypt í stein að einungis sé til eitt ákvæði um þjóðkirkju. Þú getur haft allra handa ákvæði um þjóðkirkju en ekki er spurt um það hér.

Hið sama á við um persónukjör. Það eru margs konar útlistanir á kosningakerfum og kjörreglum í hinum ýmsu löndum en já við þeirri spurningu hvort í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er segir mjög lítið.

Sjötta spurningin hljóðar svo: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? Ef svarið við þeirri spurningu verður já segir það ekkert. Það hlýtur að vera grundvallarmunur á því hvort 5% atkvæðabærra manna geti beðið um það eða 50%. Það er grundvallarmunur á því og hægt að færa rök fyrir því hvoru tveggja. Ég er einn af fáum stjórnmálamönnum hér á þingi sem treysta sér ekki til að tala fyrir hönd þjóðarinnar. Ég hef aldrei skilið hvernig menn geta talað fyrir hönd allrar þjóðarinnar, sumir hv. þingmenn eru mjög duglegir við það og það er alla jafna í öfugu hlutfalli við atkvæðavægi þeirra hv. þingmanna. Almenna reglan er sú að því færri atkvæði sem þingmenn hafa á bak við sig því meira tala þeir fyrir þjóðina.

Ég mundi samt sem áður telja að mjög miklar líkur væru á því að það væri vilji þorra kjósenda og kannski mikils meiri hluta að tiltekið hlutfall kosningabærra manna gæti krafist þess að mál færu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég mundi ætla að mjög miklar líkur væru á því og ég tel mjög skynsamlegt að slá slíkan varnagla. Ef vinna á þetta skynsamlega ættum við að skoða þetta í samhengi við embætti forseta Íslands og hvernig best sé að beita þeim málskotsrétti sem hefur þróast í tíð núverandi forseta. Það vekur athygli mína að flestir frambjóðendur til forsetaembættisins virðast túlka það á þann veg að sá réttur verði virkjaður meira en verið hefur í okkar sögu. En því miður eru menn ekki að vinna þetta með þessum hætti og ég vek athygli á því, sem er kannski alvarlegast við þetta mál, að ekki er enn búið að rýna þetta mál faglega, þ.e. ekki er enn búið að skoða hvaða afleiðingar það hefur ef breytingarnar sem tillögur stjórnlagaráðs fela í sér koma til framkvæmda.