140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að spyrja hann út í það sem hann vék að í þeim tillögum sem hér eru, hvort þær séu auðskiljanlegar og kannski líka af hverju eingöngu þessar spurningar voru valdar.

Við höfum kallað eftir því að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar taki þátt í þessari umræðu og það var aðeins vísir að því áðan þegar hv. þm. Lúðvík Geirsson kom í andsvar.

Varðandi þær breytingartillögur sem hafa komið fram — hvort þær séu á einhvern hátt eðlisólíkar eða ótengdar, sem var ástæðan fyrir því að meiri hlutinn ákvað að ýta í burtu tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur varðandi aðildarviðræður að Evrópusambandinu, hvort þær séu óskýrar eða hvort það þurfi, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi, helstu aðferðafræðisérfræðinga landsins til að spyrja spurninganna — er það þá ekki það sem út af stendur til að koma þessu máli eitthvað áfram að nefndin taki þessar spurningar og fjalli um þær áður en lengra er haldið og áður en við förum í atkvæðagreiðslu um þessar spurningar án þess að þær hafi fengið eðlilega umfjöllun?

Ég vil minna á að til dæmis er ekki spurt um 7. gr. í II. kafla, mannréttindum og náttúru, í tillögum stjórnlagaráðs: „Allir hafa meðfæddan rétt til lífs.“ Eigum við að spyrja slíkrar spurningar? Hvað þýðir þetta?

Síðan er fyrsta setning í 8. gr.: „Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn.“ Hvað þýðir það í raun og veru? Hvaða réttindi er verið að fela fólkinu í landinu með þessu og í hvaða vanda er verið að setja dómstóla?

Hefði verið eðlilegt að spyrja þjóðina hvort þessar spurningar ættu að vera í þingsályktunartillögunni? Það má svo sem halda því fram (Forseti hringir.) að hægt sé að bæta endalaust við spurningum en það er þá líka spurning hvort meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefði ekki (Forseti hringir.) átt að fjalla um þær spurningar sem eru fram komnar.