140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að ef við ætlum að vinna þetta skynsamlega þá eru tveir þættir sem við ættum að leggja mesta áherslu á og ég er sammála hv. þm. Sigurði Jóhannssyni þegar hann fer yfir þá. Hv. þingmaður vísar til tveggja greina sem flestir staldra held ég við þegar þeir lesa yfir tillögur stjórnlagaráðs, annars vegar að lifa með reisn og hins vegar um meðfædda réttinn til lífs. Ég held að margir sem eru á móti fóstureyðingum líti svo á að þarna sé komið nokkuð sem gæti nýst í þeirri baráttu. Síðan má vera að vegna þess að rétturinn er meðfæddur sé merkingin þveröfug, þ.e. viðkomandi einstaklingur hafi engan rétt fyrr en hann fæðist — viku eða einum degi áður hafi hann engan rétt. Ég held í það minnsta að það væri óábyrgt að rýna þetta ekki áður en menn komast að niðurstöðu um að setja ákvæðið í stjórnarskrá. Það hefur ekki verið gert. Í eina skiptið sem sú samræða hefur verið tekin er á milli stjórnarandstæðinga í þingsal.

Mér fannst til fyrirmyndar að hv. þm. Lúðvík Geirsson skyldi taka þátt í umræðunni, en hann hvarf úr salnum jafnskjótt og hann var búinn í andsvari. Hann kom og gagnrýndi hv. þingmenn Framsóknarflokksins fyrir að vera með óljósar og óskýrar spurningar. Ég tel afskaplega mikilvægt að fara yfir allar tillögurnar, ég held að vísu að tillaga hv. þm. Vigdísar Hauksdóttir sé frekar skýr miðað við það sem ég hef heyrt af henni en það er aukaatriði. Við hljótum að fara yfir allar spurningarnar og meta hvort þær séu það skýrar að allir skilji þær eins, annars verður ekkert að marka þær.

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að gagnrýni hv. þm. Lúðvíks Geirssonar, sem var málefnaleg, á líka við um þær spurningar sem á að leggja fyrir þjóðina.