140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir að það væri áhugavert. Ég var satt best að segja að vonast til þess að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kæmi inn í umræðuna, mér fannst hv. þm. Lúðvík Geirsson opna fyrir það. Það er nauðsynlegt að þessi umræða fari fram og hún geri það núna en ekki einhvern tíma þegar búið er að greiða atkvæði um málið því að þá sé ég ekki að menn hafi vandað sig við þessar spurningar.

Til tals hefur komið 5. spurning í breytingartillögum meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar af landinu vegi jafnt?“

Ég hugsa að langflestir telji að það sé eðlilegt og sá sem hér stendur er einn af þeim. En hvað þýðir það í raun? Er þá eitthvað óeðlilegt við það að menn komi með viðbótarspurningar sem hugsanlega tengjast útfærslunni á því? Það er óljóst hvernig menn ætla að vinna úr þeirri niðurstöðu. Ef til dæmis stór meiri hluti þjóðarinnar segir já við því, á þá að breyta landinu í eitt kjördæmi? Það var gert í kosningunum til stjórnlagaþings. Það er gott dæmi um hvað gerist við slíka kosningu. Ég held að einn eða tveir hafi verið kosnir af landsbyggðinni í þeirri kosningu. Það ætti kannski að fæla frá því að það yrði ekki eðlilegur þverskurður af þjóðinni sem settist á þing. Þess vegna finnst mér ekkert óeðlilegt við að menn velti fyrir sér, eins og kemur fram í breytingartillögum frá hv. þingmönnum Gunnari Braga Sveinssyni og Ásmundi Einari Daðasyni, í kjölfar þessarar spurningar annarri spurningu sem er líka tilfinningalegs eðlis um hvort menn vilji að í stjórnarskrá verði kveðið á um jafnræði til búsetu. Það þyrfti auðvitað að fara yfir þessar spurningar og velta því fyrir sér hvernig þær kæmu best út. Eins hafa aðrar spurningar komið fram, t.d. hvort eðlilegt sé að hafa jafnræði gagnvart opinberri þjónustu óháð búsetu. Er það ekki eðlilegt líka? Er ekki líklegt að menn mundu svara því með já-i? (Forseti hringir.)

Ég held að það sé nauðsynlegt að þessi umræða fari fram við meiri hlutann og það fari fram einhver skoðun á þessum (Forseti hringir.) spurningum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd áður en við göngum til atkvæða.