140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru allt spurningar sem hljóta að vakna þegar menn fara yfir þetta mál. Við komumst alltaf að þeirri niðurstöðu að það er ekki búið að vinna það. Það er svo langt frá því. Það er ástæða fyrir því að á þessu þjóðþingi eins og öðrum þjóðþingum er almenna reglan sú að talað er fyrir málum, þau eru síðan send til nefndar, kallað er eftir umsögnum og menn vinna málin eins vel og mögulegt er áður en þau koma aftur í þingið. Mál fara í nokkrar umræður til að halda þeirri reglu að í það minnsta sé gerð heiðarleg tilraun til að vinna þau eins vel og hægt er.

Í þessu risastóra máli eru menn núna fyrst að láta sérfræðinga fara yfir það. Af því að hv. þingmaður nefndi spurninguna vil ég kannski draga í land með að hún sé sú skýrasta því að þegar ég fór yfir spurningarnar voru þær allar mjög óljósar og mjög óskýrar. Hér er enginn hv. þingmaður stjórnarliðsins til að svara málefnalegum spurningum, sem er ábyrgðarhluti, og verður eðli málsins samkvæmt gengið eftir því að þeir komi hingað og standi fyrir máli sínu.

Er það þannig að ef menn segja já við 5. spurningunni eru þeir þá að greiða atkvæði með því að landið verði eitt kjördæmi? Og með spurningunni um persónukjörið, eru menn þá að greiða atkvæði með því að landið verði eitt kjördæmi eins og var í kosningum til stjórnlagaþings? Þeir sem voru kosnir í stjórnlagaþing áttu það almennt sameiginlegt að vera áberandi í fjölmiðlum (Gripið fram í: … höfuðborgarsvæðinu.) og búa á höfuðborgarsvæðinu, en ég þekkti engan þeirra. Ég fór og kaus til stjórnlagaþings. Það tók mig dágóðan tíma. Ég átti það sameiginlegt með flestum öðrum að ég vissi ekki alveg — ég man ekki hvað það voru margir sem buðu sig fram … (Gripið fram í: 525.) 525 — fyrir hverju allir stóðu (Forseti hringir.) eða að það væru skýrar línur í því. Kannski skýrir það niðurstöðuna og tillögurnar.