140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún kom inn á það að það ætti að blanda aðildarviðræðum að Evrópusambandinu inn í atkvæðagreiðsluna, en hefur hv. þingmaður hugleitt það, sem margir hafa verið að segja, að þessi atkvæðagreiðsla í október sé í rauninni skoðanakönnun? Spurningin er: Af hverju tökum við ekki bara það skref til fulls, komum með breytingartillögu um að ríkisstjórnin láti fara fram vandaða og góða skoðanakönnun sem gæti gefið miklu betri upplýsingar og kostað kannski 1/10 af þeim fjármunum sem þessi þjóðaratkvæðagreiðsla kostar? Hún gæti gefið miklu betri niðurstöðu vegna þess að þegar fólk kýs um eitthvað gerir það ráð fyrir því að það hafi áhrif, það ráði einhverju. Ég hugsa að mjög margir kjósendur verði svekktir þegar svo kemur í ljós að í rauninni á ekkert að fara eftir því sem menn hafa greitt atkvæði um. Væri þá ekki miklu betra að hafa skoðanakönnun þar sem menn gera ekki ráð fyrir því að þeir hafi áhrif? Þá er hægt að fá margfalt betri upplýsingar.

Mjög vönduð skoðanakönnun með mjög stóru úrtaki gæfi nákvæma mælingu auk þess sem öll þjóðin tæki þátt í því með úrtaki, og væri þá ekki miklu gæfulegra að fara þá leið en þessa glötuðu þjóðaratkvæðagreiðslu sem í rauninni gefur mjög takmarkaðar upplýsingar?