140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi stuðning hv. þingmanna Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina hef ég aldrei nokkurn tímann séð betri leiktjöld, betra handrit eða betri leikara en fóru fram með þetta leikrit sem hefur átt sér stað síðasta hálfa mánuðinn. Stuðningur við ríkisstjórnina var sett sem skilyrði. Ég segi: Hvaða stuðningur? Fyrst var komið í fjölmiðla og sagt: Við ætlum að styðja ríkisstjórnina í góðum málum, við ætlum að styðja hana í ákveðnum málum, við ætlum að styðja hana í aðeins minni málum og svo koma þau í fjölmiðla í gær og segja: Við erum hætt stuðningi við ríkisstjórnina. (Gripið fram í.)

Þetta er svo gott leikrit, virðulegi forseti, sérstaklega í ljósi þess að í morgun kom í ljós að það eru vatnaskil í utanríkismálanefnd varðandi ESB-umsóknina. Það var raunverulegt tækifæri í morgun að fella ríkisstjórnina, en hvað gerist? Hv. þm. Þór Saari kemur í ræðustól og segir: Jú, jú, við erum hætt stuðningi við ríkisstjórnina. Í næstu setningu segir hann: En við ætlum samt að styðja hana í ESB-málinu. Það verður að ljúka viðræðum við Evrópusambandið og skila samningi til að þjóðin fá að kjósa um hann.

Því miður virðist sem hv. þingmenn Hreyfingarinnar hafi ákveðið að sitja út þetta kjörtímabil með illu eða góðu, með stuðningi við ríkisstjórnina í hinum svokölluðu góðu málum sem þau hafa boðað. Ég veit ekki hvaða góðu mál það eru því að Hreyfingin hefur ekki þurft að svara fyrir það. Vegna þessa sýnist mér að þeir mælist mjög lágir í skoðanakönnunum og það á að svelta þjóðina fyrir þessa ríkisstjórn og ég tel að þingmönnum Hreyfingarinnar sé nákvæmlega sama um hvað gengur á í samfélaginu vegna þess að ef þau ganga til liðs við okkur í stjórnarandstöðunni (Forseti hringir.) er ríkisstjórnin fallin en ríkisstjórnin situr núna í skjóli (Forseti hringir.) þessara þriggja þingmanna.