140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:17]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það voru tvær spurningar sem hv. þingmaður beindi til mín. Varðandi fyrri spurninguna og þá breytingartillögu sem lögð var fram við Evrópusambandsumsóknina á sínum tíma hefði ég talið hyggilegast að sú breytingartillaga hefði verið samþykkt. Þá hefði legið til grundvallar frá fyrsta degi hvort þjóðarvilji væri að baki aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Bara svo því sé haldið til haga studdi sá sem hér stendur þá breytingartillögu og kannski er ágætt að rifja upp að ég hafði einnig í hyggju að vera meðflutningsmaður á henni allt þar til kvöldið fyrir umræðurnar þegar hæstv. forsætisráðherra lét þau orð berast að það yrði litið svo á að menn væru að svíkja fyrstu vinstri stjórnina ef þeir ætluðu að bera fram slíka tillögu á Alþingi. Þá varð ég í fyrsta skipti var við þá gríðarlegu lýðræðisást sem býr í hjarta hæstv. forsætisráðherra. Síðan upplifðum við það sama í Icesave-málinu í tvígang þegar hér komu tillögur um að þjóðin fengi að segja hug sinn í Icesave-málinu og hæstv. ríkisstjórn greiddi auðvitað atkvæði á móti báðum þeim tillögum en sá sem hér stendur studdi þær báðar. Þess vegna velti ég því upp hvort það sé raunverulegur vilji til að beint lýðræði verði notað hér í ríkara mæli. Ég hef ákveðnar efasemdir um það í ljósi sögu síðustu þriggja ára en það hefði klárlega verið betra hefði sú breytingartillaga náð fram að ganga á sínum tíma. Þá hefði legið fyrir hvort þjóðarvilji væri að baki Evrópusambandsumsókninni sem er komin í algjört öngstræti í dag. Langflestir eru farnir að sjá það, ekki bara hér á landi heldur líka erlendis. Það hefur margt breyst í Evrópu og það er mjög mikið atriði að fá þessa þjóðaratkvæðagreiðslu fram þannig að það liggi fyrir hvort meiri hluti þjóðarinnar sé að baki utanríkisstefnu þjóðarinnar. (Forseti hringir.)

Hvað varðar seinni spurninguna mun ég koma inn á hana í mínu síðara andsvari.