140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hugmyndir um að festa í stjórnarskrá ákveðnar reglur varðandi hagstjórn eru áhugaverðar. Á þeim eru reyndar nokkrir gallar en ég sé líka vissa kosti við það. Hins vegar höfum við ekki fengið fram umræðu um kosti og galla ólíkra leiða hvað þetta varðar vegna þess að hv. þingmenn stjórnarflokkanna, þeir sem að þessum tillögum standa, fást ekki til þess að rökræða tillögurnar sem þeir leggja hér fram. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum kvartað alloft undan þessu en ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu mikið vandamál þessi fjarvera stjórnarliðsins er fyrr en í umræðum um störf þingsins áðan. Þá komu nokkrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar og lýstu því máli sem hér er til umræðu á þann hátt að þeir hafa greinilega ekki hugmynd um hvað er verið að ræða.

Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort við þurfum ekki að fara fram á það að a.m.k. þeir sem skrifa upp á þessa tillögu og leggja hana fram taki þátt í umræðunni. Hæstv. forseti getur beitt sér fyrir því að viðkomandi þingmenn geri það. Er hv. þingmaður sammála mér um að til þess að við komumst eitthvað áfram með þessa rökræðu, og sérstaklega til þess að þingmenn stjórnarliðsins geri sér grein fyrir því um hvað málið snýst yfir höfuð, sé mikilvægt að fá þá til að taka þátt í umræðunni?