140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:31]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni að mér finnst eins og ekki fylgi hér mikill hugur máli. Á tyllidögum segjast stjórnarþingmenn vera að berjast fyrir breytingum á stjórnarskrá en þeir láta ekki svo lítið að láta sjá sig í salnum þegar er verið að ræða þetta mál. Jafnframt virðast sumir þingmenn standa í þeirri meiningu að sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem hér er undir snúist á einhvern hátt um lýðræði, að það eigi að samþykkja drög að nýrri stjórnarskrá eða annað því um líkt. Við þingmenn höfum líka fengið mikið af tölvupóstum frá áhugamönnum um stjórnarskrá undanfarna daga, sjálfsagt 80–90 tölvupósta þar sem er staðlaður texti þar sem því er haldið fram að með því að vilja ræða þessi mál efnislega séum við að koma í veg fyrir að þjóðin eignist nýja stjórnarskrá.

Þetta mál virðist allt vera byggt á tómum misskilningi. Jafnvel þingmenn á hv. Alþingi standa í þeirri meiningu að málið snúist um allt aðra hluti en það gerir. Þess vegna er ég algjörlega sammála þingmanninum að það er náttúrlega furðulegt að hér fari ekki fram efnisleg umræða og ég tala nú ekki um rökræður eins og þingmaðurinn sagði. Menn láta ekki einu sinni svo lítið að gefa einhvers konar yfirlýsingu, hvað þá að rökræða. Það væri þó tilbreyting.