140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vonandi er það rétt hjá hv. þingmanni að um misskilning sé að ræða. Ég óttast hins vegar að vandinn sé fyrst og fremst sá að þingmenn stjórnarliðsins — það reyndar á ekki við um þá alla held ég — stór hluti þeirra hafi engan raunverulegan áhuga á þessu máli. Fyrir þeim snúist þetta ekki um lýðræðisást eða vilja til að breyta stjórnarskránni á sem skynsamlegastan og bestan hátt eða heyra álit þjóðarinnar á þeim atriðum sem mikilvægast er að kanna hug hennar til. Ef sú væri raunin hefðu menn unnið þetta almennilega. Þá hefðu þeir heldur ekki látið þetta mál liggja mánuðum saman óhreyft þangað til allir frestir, eins og þeir voru upprunalega í tillögu Hreyfingarinnar, voru útrunnir.

Það var enginn áhugi á því að taka þetta mál fyrir eða ræða það efnislega fyrr en Hreyfingin fór að hóta því að hún kynni að styðja vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Þá var allt í einu farið að róta í pappírum og tillaga Hreyfingarinnar dregin upp, fyrst til þess að reyna að koma á þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningunum en fresturinn til þess rann út eins og allir aðrir tímafrestir höfðu áður runnið út, þeir sem getið var um í tillögunni. Nú er aftur keyrt á þetta mál án rökræðu, án nokkurrar skynsemi, án þess að menn hafi yfir höfuð fyrir því að koma í þingsal og rökstyðja mál sitt, vegna þess að Hreyfingin gerir kröfu um það og ríkisstjórnin óttast um líf sitt.

Er rétt og sanngjarnt gagnvart þeim sem vilja raunverulega breyta stjórnarskránni til hins betra, og ég er einn af þeim, að málin séu unnin með þessum hætti? Þurfum við ekki að ræða þessi mál eins og þau raunverulega eru? Ég ítreka, og það hafa menn reynt að gera í þessari umræðu, að hjá að minnsta kosti mjög stórum hluta þingmanna er til staðar vilji til að gera umtalsverðar breytingar á stjórnarskránni. Ég get náttúrlega ekki talað fyrir munn hv. þingmanns.