140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Fyrri spurning hv. þingmanns sneri að friði í Evrópu og hvort það sé afleiðingin af Evrópusambandinu. Ég deili ekki þeirri skoðun hv. þingmanns að Evrópusambandið hafi ekki endilega stuðlað að friði, ég tel nefnilega að stofnun Evrópusambandsins hafi stuðlað að friði. Ég er þar eiginlega á sama báti og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sem sagði núna í evrukrísunni, þegar hún sagði að Þjóðverjar yrðu að leggja á sig miklar byrðar og taka á sig mjög þungar skuldbindingar, að það væri gert til að stuðla að friði. Hún lagði áherslu á friðinn sem Evrópusambandið hefði tryggt innan sinna vébanda. Það var náttúrlega stríð í Júgóslavíu og allt það en innan vébanda Evrópusambandsins hefur ekki orðið stríð. Það er mjög ólíkt því þegar maður horfir á söguna aftur í tímann, þetta er sennilega að verða eitt lengsta friðartímabil í Evrópu. Ég vil unna Evrópusambandinu þess sem það hefur gert vel og tel að það hafi einmitt náð þessu fram og það er bara fínt. Evrópusambandið er fínt fyrir aðra en Íslendinga, svo ég taki það nú fram strax.

Varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um órædd mál, þá er það náttúrlega alveg ótrúlega mikil rökvilla, rökleysa og rökvilla. Hér er um að ræða mál sem hefur af hálfu stjórnarliða ekkert verið rætt efnislega, ekki neitt. Meira að segja Hreyfingin, ég er búinn að fara í gegnum ræður þeirra, þegar málið kom fyrst inn í Alþingi var ekki rætt um það efnislega, heldur bara að það þyrfti að breyta stjórnarskránni, af því bara. Nú á að fara að setja þetta fyrirbæri, ágætistillögur í og með en líka gallaðar í bland, þessu á bara að henda í þjóðaratkvæðagreiðslu á sama tíma og menn segja að það megi ekki setja miklu vandaðri hugmyndir í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og aðildarumsóknina að Evrópusambandinu.