140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Í þeim tveimur ræðum sem ég hef flutt um þetta mál hef ég aðallega farið yfir vinnubrögðin og hvað ég tel að hefði verið eðlilegra vinnulag við málið. Nú er ég kominn að því að fjalla um breytingartillögurnar, bæði frá meiri hlutanum sem og þær breytingartillögur sem ýmsir þingmenn hafa lagt fram við málið.

Það eru ákveðin vonbrigði að sá meiri hluti sem lagði fram breytingartillögurnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi ekki tekið þátt í þessari umræðu. Ég var satt best að segja að vonast eftir því í dag þegar hv. þm. Lúðvík Geirsson kom upp í andsvör og var hér í málefnalegri umræðu um þá þætti sem ég tel fullkomlega eðlilegt að við ræðum, m.a. þær breytingartillögur sem hér hafa komið fram sem snúa að valdsviði forsetans og eru klárlega álitamál og er fullkomlega eðlilegt að vísa spurningum um þau álitaefni til þjóðarinnar og fá leiðsögn um eins og um þær fimm eða sex spurningar sem meiri hlutinn lagði til. Einnig varðandi þjóðréttarlegar skuldbindingar, ég tel fullkomlega eðlilegt að þjóðin fái tækifæri til að segja álit sitt á því hvort þær eigi heima í stjórnarskrá, og eins fullveldisafsalið. Hins vegar hefur því miður ekki borið meira á þeim meirihlutamönnum við umræðuna í dag.

Þá stöndum við í þeim sporum að þær breytingartillögur sem hafa verið bornar fram, og eru held ég yfir 20, standa þannig að þegar við greiðum atkvæði um þær hafa þær ekki fengið umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þær hafa ekki fengið það mat hvort þær séu, eins og segir í niðurstöðu nefndarálits meiri hlutans um viðbótarspurningu sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir lagði fram, eðlisólíkar eða ótengdar. Ég tel að þær séu það engan veginn og margar þeirra muni skýra jafnvel frekar þær spurningar sem hv. meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði fram. Til að mynda varðandi 5. tillöguna, um að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu eigi að vega jafnt, þá komu nokkrar aukaspurningar, viðbótarspurningar, sem snúa að því máli frá hv. þingmönnum Gunnari Braga Sveinssyni og Ásmundi Einari Daðasyni, er varða til dæmis jafnrétti til búsetu, hvort það eigi að vera ákvæði um slíkt í stjórnarskránni.

Það kom líka tillaga frá hópi þingmanna sem Jón Bjarnason var 1. flutningsmaður að er varðaði jafnræði allra landsmanna þegar kemur að opinberri þjónustu óháð búsetu. Ég tel að það sé ekkert óeðlilegt að velta því fyrir sér í kjölfarið. Enn fremur varðandi þátttöku í ákvarðanatöku og trúnaðarstörfum og eins um útgjöld hins opinbera eftir landshlutum. Ég held að þetta séu allt jafnáhugaverðar spurningar. Það hefði verið áhugavert að meiri hlutinn fjallaði um þær og hefði metið hvort þær væru ótækar eða ólíkar og þær hefðu fengið jafngóða vinnu og þær tillögur sem meiri hlutinn leggur fram. Ég tel að þær höfði, margar hverjar, meira til tilfinninga fólks en að þar liggi endilega fyrir grundvallarupplýsingar sem menn geti tekið upplýsta ákvörðun um.

Ég ætlaði að koma aðeins inn á breytingartillögu sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir lagði fram og í ljósi þeirra umræðna sem varð hér undir liðnum Störf þingsins fyrr í dag og þeim nýja meiri hluta sem varð í utanríkismálanefnd um það mál, verð ég, frú forseti, að fá að halda aðra ræðu um það þar sem tími minn er búinn og ég bið um að verða settur á mælendaskrá.