140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Þarna kom hv. þingmaður einmitt að kjarna málsins, að mínu viti, vegna þess að ef við höldum aðeins áfram með dæmið um þjóðkirkjuna gæti ég verið á þeirri skoðun að hafa ætti ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskrá sem fæli í sér að það væri þjóðkirkja hér á landi með svipuðum hætti og verið hefur. Einhver annar gæti verið á þeirri skoðun að það ætti að vera ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá sem bannaði þjóðkirkju á Íslandi. Ég sé ekki hvað niðurstaða þessarar könnunar á að hafa í för með sér.

Ég er svolítið hugsi yfir því ef lögin sem eru í gildi um þjóðaratkvæðagreiðslu heimila að svo opnar spurningar séu lagðar fyrir hvort við þurfum ekki einfaldlega að breyta þeim.

Ég tel að í þjóðaratkvæðagreiðslu verði að vera mjög skýr valkostur og skýrt hvaða áhrif niðurstaðan muni hafa, eins og var í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave. Það var alveg ljóst hvaða áhrif já mundi hafa og hvaða áhrif nei mundi hafa. Hér erum við hins vegar með spurningar sem er algjörlega óljóst hvaða áhrif hafa. Í stað þess ættum við að fara í þá vinnu að ræða efnislega um tillögur stjórnlagaráðs og leggja svo fyrir þjóðina spurningar um fullmótuð ákvæði sem gætu farið í nýja stjórnarskrá. Ég tel að ef á annað borð á að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu stigi sé rétta leiðin sú að koma með fullmótaðar tillögur að ákvæðum í stjórnarskrá og leita eftir afstöðu þjóðarinnar til þeirra.

Fyrst landskjörstjórn gerir ekki sterkari athugasemdir við þetta fyrirkomulag tel ég að það þurfi að breyta lögunum um þjóðaratkvæðagreiðslur. Mig langar til að vita hvort hv. þingmaður sé sammála mér um það.