140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:24]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Sem sjá má er ég ekki á þingflokksfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, heldur í þingsal tilbúin til að halda áfram að hlýða á misefnismiklar ræður stjórnarandstöðunnar og andsvör eða samsvör þingmanna hennar hvers við annan.

Ég verð að segja vegna orða hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að ég held að það sé óþarft fyrir hv. þingmenn að endurtaka það sem þeir hafa verið að segja hér síðasta klukkutímann, því að það hefur allvel verið fylgst með því. Ég treysti því að hv. þm. Pétur H. Blöndal muni flytja innan skamms sína tólftu ræðu um þessi mál. Við munum að sjálfsögðu fylgjast með henni eins og hinum ellefu líka.