140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þetta er allt hið undarlegasta mál, maður veit ekki hvort maður þarf, eins og aðrir þingmenn hafa velt hér upp, að endurflytja ræðu sína. Að minnsta kosti fékk ég ekki svör frá þeim þingmönnum sem standa að þessu máli við þeim spurningum sem ég varpaði fram í síðustu ræðu minni og heldur ekki í fyrri ræðum mínum um þetta mál. Ég hvet hæstv. forseta til að vekja athygli þingmanna meiri hlutans á því að hér er í gangi umræða um mikilvægt málefni. Það væri því mjög til bóta fyrir umræðuna ef þeir hv. þingmenn gætu blandað sér í hana, rætt við okkur og svarað þeim fjölmörgu spurningum sem beint er til þeirra hv. þingmanna. Annars lítur þetta þannig út að þeir vilji ekki standa við þessa tillögu eða treysti sér ekki til að svara þeim spurningum sem hér er beint að þeim.