140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að það stóð yfir þingflokksfundur þegar ég hélt ræðu mína hér fyrr í dag þar sem ég varpaði fram spurningu til þeirra hv. þingmanna meiri hlutans sem standa að þessu máli um það hvort það hefði verið íhugað af hálfu nefndarinnar að láta fara fram svokallaða forprófun á þeim spurningum sem meiningin er að leggja fyrir þjóðina. Það er mikilvægt að fá svör við þessari spurningu. Þegar gerðar eru spurningar sem unnið er eftir í rannsóknum, og þetta er viðurkennt í aðferðafræðinni, er þeirri aðferð oft beitt til að sníða helstu agnúa af þeim spurningum sem ætlunin er að leggja fyrir og til að sannprófa það að spurningarnar séu skiljanlegar og að þeir sem taka þátt í að svara þeim skilji þær á sama hátt sem er gríðarlega mikilvægt þegar spurningum er varpað fram ef hægt á að vera að vinna með niðurstöðu kannananna.

Þessari spurningu hefur ekki verið svarað og óska ég eftir að flutningsmenn þessarar tillögu komi hér og svari mér um þetta málefni.

Ég hef talsvert velt því fyrir mér hvort lögin um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna þarfnist endurskoðunar í kjölfar þess máls sem hér liggur fyrir. Það er mikilvægt að þjóðaratkvæðagreiðsla skili skýrum niðurstöðum sem kjósandinn sér síðan að unnið er með. Ef svo er ekki er hætt við því að þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslum framtíðarinnar verði lítil og áhugi kjósenda þverri á því að taka þátt í málsmeðferð sem þessari. Því þarf að vanda til verka og því þurfa spurningar að vera skýrar.

Ég hef ákveðnar efasemdir um að rétt sé að hafa þann möguleika að beina spurningum sem ekki fela í sér efnislega niðurstöðu til kjósenda, í þessu tilviki tilvonandi ákvæði í stjórnarskrá, ég hef efasemdir um að hægt eigi að vera að leggja fram slíkar spurningar. Ég tel réttara að hafa lögin þannig að um sé að ræða beinar tillögur sem kosið er um eða kosið er á milli þannig að ljóst sé hvað felst í spurningunum sem beint er til kjósenda og hvaða áhrif já muni hafa og hvaða áhrif nei muni hafa. Í þessu tilviki er það ekki skýrt.

Ef við tökum sem dæmi spurningu nr. 2 í breytingartillögunni sem hljóðar svo:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“

Þeirri spurningu er hægt að svara með já-i eða nei-i. Gallinn við þessa spurningu er sá að menn skilja ekki allir hugtakið þjóðareign á sama hátt. Það er ekki ljóst — verði svarið og niðurstaðan úr þessari þjóðaratkvæðagreiðslu já, að þorri manna vilji hafa slíkt ákvæði inni í nýrri stjórnarskrá — hvað slíkt ákvæði muni fela í sér vegna þess að það er ekki ljóst hvað þetta hugtak þýðir í hugum þeirra sem taka afstöðu til þessarar spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef kjósandinn segir já við þessari spurningu og hefur ákveðnar væntingar um hvað slíkt ákvæði í stjórnarskrá muni fela í sér getur niðurstaðan orðið allt önnur en sami kjósandi vildi þegar hann var að taka afstöðu til þessarar spurningar.

Jafnframt er 1. spurningin með ákveðinn galla vegna þess að þar er spurt, með leyfi forseta:

„Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? “

Svarmöguleikarnir eru já eða nei. Tillögur stjórnlagaráðs eru mjög margar og hver og einn kjósandi getur haft mjög mismunandi afstöðu til þeirra. Ef kjósandi er mjög andsnúinn einni hugmynd stjórnlagaráðs ætti kjósandinn þá að segja nei? Þá væri hann að segja nei við öllum tillögum stjórnlagaráðs. Eða ætti hann að segja já og ætti þá á hættu að það ákvæði eða atriði sem hann er mjög andsnúinn lenti inni í nýrri stjórnarskrá? Það mundi kjósandinn væntanlega ekki vilja og mundi þess vegna segja nei. Þá fáum við í rauninni skekkta niðurstöðu.

Þess vegna hefði verið betra að það væri bara spurt beinna spurninga um tillögur að orðalagi í nýrri stjórnarskrá. Þá mundum við fá niðurstöður gagnvart þeirri tillögu sem væri þá annaðhvort samþykkt eða felld og þá væri (Forseti hringir.) algjörlega skýrt um hvað væri spurt og hverjar afleiðingarnar af já-i eða nei-i væru.