140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Ég hef ekki lagt í vana minn að fara í andsvör við samflokksmenn, hef engu að síður gert það nokkrum sinnum, en mig langar núna til að spyrja hv. þingmann nokkurs vegna þess að það efni sem hann ræddi, auðlindir og eign á auðlindum og þjóðareign á auðlindum og annað slíkt, er mjög í tísku sem stendur. Við erum eiginlega að ræða um tvo skóla í þessum efnum, annars vegar að útgerðarmenn eigi bara ekkert kvótann og það eigi að taka hann af þeim helst sem allra fyrst og láta fulltrúa þjóðarinnar fá hann, sem oft og tíðum er í hugum þessa fólks ríkið, og hins vegar að auðlindirnar séu í eigu útgerðarmanna sem hafa tekið áhættu og gert út skip og annað slíkt. Sér hv. þingmaður einhverja málamiðlun þarna á milli eða eiga menn bara hreinlega að tala í kross eins og þeir hafa gert, hlusta ekki á rök hver annars? Aðrir segja að fiskurinn í sjónum og rétturinn til að veiða hann sé eign þjóðarinnar í einhverjum skilningi og oft og tíðum að ríkisvaldið eigi að fara með hana, sem sagt að ríkið eigi að eiga hana, og svo segja hinir að útgerðarmennirnir hafi aflað sér þessarar reynslu, að þekking þeirra, mannvit, dugnaður og frumkvæði hafi skapað þessi verðmæti. Sér hv. þingmaður einhverja leið til að sætta þessi að mínu mati allt að því ósættanlegu sjónarmið?