140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sáttin felst í því að á Íslandi verði rekinn hagkvæmur sjávarútvegur sem myndar auð sem síðan er hægt að skattleggja og nota til fjárfestinga, bæði í sjávarútvegi og öðrum greinum. Þannig vex auður þessarar þjóðar. Þannig batna lífskjör þessarar þjóðar. Það er á þeim grundvelli sem sáttin á auðvitað að byggjast. Enginn dregur í efa yfirráðarétt íslenska ríkisins yfir fiskveiðistofnunum. Hér er einungis verið að spyrja um takmörkunina sem fylgir þeirri ákvörðun sem tekin var á þeim tíma þegar menn horfðust í augu við það að við vorum að sóa allri auðlindarentunni og ég leyfi mér að rifja það upp fyrir hv. þingmann, sem auðvitað þekkir þessa sögu, að sú staða var komin upp að það þurfti að taka aftur og aftur fjármuni úr ríkissjóði til að styrkja og styðja við þessa atvinnugrein vegna þess að fyrirkomulag fiskveiðanna var með þessum hætti.

Ef það á að taka áfram þá líkingu sem hv. þingmaður velti hér upp um stöðu ríkisins ef það takmarkar með lögum sínum með einhverjum hætti aðgengi borgara að auðlindum má til dæmis minna á að eignir bænda á jörðum sínum eru tryggðar með því að ríkið setur lög sem ver þann eignarrétt. Ef lögin væru þannig að bændum væri bara falið að reyna að verja jarðir sínar sjálfir fyrir ágangi annarra og hefðu ekki ríkisvaldið að baki sér til að verja þær sjá menn hvað yrði um íslenskan landbúnað. Það yrði slegið áður en grasið væri sprottið og auðlindasóunin yrði alger.

Þess vegna eru það ekki rök þó að ríkið grípi til einhvers konar takmörkunarráðstafana til að tryggja að það verði til auður vegna auðlindanýtingar. Það eitt og sér getur ekki veitt ríkisvaldinu einhvers konar eignarrétt.

Ég minni líka á það, virðulegi forseti, að saga þeirra þjóða sem hafa fært undir sameign auðlindir sínar er ekkert sérstaklega glæsileg (Forseti hringir.) hvað varðar efnahagslega afkomu.