140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

samkomulag um lok þingstarfa.

[17:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir og árétta það sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði hér. Ég vil einnig bæta því við að forseti hefur gengið í málið og náð þessu samkomulagi fram, sem hlýtur að gleðja þá er starfa á Alþingi — ég verð samt að segja það, frú forseti, að mér finnst miður að umræðan um þetta mál hafi ekki verið víðtækari, að fleiri hafi ekki tekið þátt í henni.

Við erum að ræða stjórnarskrá Íslands. Við erum að ræða okkar merkasta og mikilvægasta plagg. Ég hefði svo sannarlega viljað að meiri umræða hefði orðið um einstakar tillögur og athugasemdir sem hafa fylgt en svona er þetta. Ekki er heldur ástæða til að halda áfram að tala við veggina þegar þingmenn (Forseti hringir.) hafa ekki mikið til málanna að leggja.