140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

752. mál
[17:49]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er til að svara varðandi samráðið, sem ég gat um í fyrra andsvari mínu, að það er EES-teymið sem vinnur þessi frumvarpsdrög eða þetta frumvarp eins og gert er ráð fyrir. Það er náttúrlega með skýrri aðkomu sveitarfélaganna.

Ég geri ráð fyrir því að hv. umhverfis- og samgöngunefnd muni skoða allar hliðar málsins og líka að því er varðar lagatæknilega framsetningu þess. Eins og kemur fram í andsvari hv. þingmanns um hvað eigi að vera beinlínis í lagatextanum og hvað í skýringum þá er það nokkuð sem ég vænti að löggjafinn taki til skoðunar við úrvinnslu sína.

Í frumvarpinu er kveðið á um víðtækari áætlanir en í núgildandi lögum, sem heilbrigðisnefndir gera. Þess vegna mun þetta auðvitað hafa einhvern kostnaðarauka í för með sér fyrir sveitarfélögin. Við erum að tala um aukin lífsgæði fyrir almenning og ég vænti þess að við deilum þeirri afstöðu, ég og hv. þingmaður, að það sé eftirsóknarvert fyrir íbúa alls landsins og allra sveitarfélaga.

Það er líka sérlega mikilvægt sem fram kemur í andsvari hv. þingmanns, að gæta þurfi sérstaklega að þeim áhrifum á loftgæði sem aukin nýting jarðvarmans hefur. Við höfum séð áhrif brennisteinsvetnis og hér erum við að tala um fjölþættari áhrif.

Ég geri ráð fyrir því að hv. umhverfis- og samgöngunefnd muni lýsa eftir athugasemdum hagsmunaaðila í þessu efni eins og í öðrum þeim frumvörpum sem nefndin hefur til umfjöllunar og væntanlega fær iðnaðurinn og aðrir hagsmunaaðilar tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri. Ég vænti þess að þingnefndin muni taka þær til málefnalegrar og uppbyggilegrar umfjöllunar.