140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

innheimtulög.

779. mál
[18:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Helga Hjörvar, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og þakka honum fyrir ágæta ræðu. Ég tek undir það að markmiðið með þessu frumvarpi er gott. Það er afrakstur vinnu sem hefur verið í gangi nokkuð lengi í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem ég mun fara betur yfir á eftir. Það má samt sem áður segja að niðurstaðan hafi verið helst til rýr miðað við þau markmið sem við settum okkur, en ég fer nánar í það á eftir.

Ég vildi hins vegar vekja athygli á því og ég held að við séum sammála um það að í öllum málum og þá sérstaklega þessu þurfi að vanda vel til verka. Það er mjög auðvelt að misstíga sig og góður ásetningur getur orðið að slæmri niðurstöðu. Nú er ég ekki að segja, alls ekki, virðulegi forseti, að það eigi við í þessu tilfelli. Við erum hins vegar á gráu svæði að því leytinu til að ég ætla að innheimtulög heyri undir aðra nefnd þingsins, þ.e. allsherjar- og menntamálanefnd. Í öðrum málum höfum við flutt slík mál en vísað þeim síðan til allsherjar- og menntamálanefndar. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort það væri meiningin að gera það sama hér og vísa þessu máli til allsherjar- og menntamálanefndar sem er vanari því að eiga við málefni eins og þetta.