140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

innheimtulög.

779. mál
[18:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að gera mikinn ágreining um þetta. Ég tel hins vegar og við höfum upplifað það að þegar við vöndum okkur ekki þá verða slys. Það sem kemur fyrst í hugann eru lög nr. 151/2010 þegar Alþingi brást við fyrsta hæstaréttardómi um gengislán og þá urðu handarbakavinnubrögð þess valdandi að erfitt mál var gert enn erfiðara og við erum í flækju sem við sjáum ekki fyrir endann á og þeir sem hafa orðið fyrir þeirri flækju og því ónæði eru þeir sem síst skyldi, þ.e. skuldarar gengislána.

Í það minnsta, virðulegi forseti, ef þetta er niðurstaðan hjá hv. þingmanni mundi ég leggja það til að við fengjum álit frá hv. allsherjar- og menntamálanefnd þannig að við hefðum varann á. Þó svo að við höfum fjallað svolítið mikið um þennan þátt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að undanförnu þá erum við ekki vön að fjalla um mál á þessu sviði, næg eru sviðin samt því að breitt og vítt er verksvið nefndarinnar og ætla ég ekki að rekja það hér. Ég fer þess á leit við hv. þingmann að við sammælumst um það að vísa þessu til umsagnar hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd.