140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ræðuna og langaði að spyrja hann út í nefndarálit sem hv. þingmaður skrifar undir ásamt hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni.

Komið hefur fram að þótt IPA-styrkirnir hafi hentað Austur-Evrópu nokkuð vel á sínum tíma þegar þær þjóðir voru í aðildarviðræðum við Evrópusambandið sé erfitt að finna hér á landi samsvörun við það fordæmi. Þar voru efnahagsaðstæður allt öðruvísi, stjórnsýsla var víða í molum og innviðir í þjóðfélaginu voru að hruni komnir eftir margra áratuga ofstjórn kommúnista og ofstæki miðstýringaráráttu þar sem allt hafði molnað niður. Hér eru aðstæður aftur á móti nokkuð aðrar. Hingað á að koma með fjármuni til þess augljóslega að aðlaga Ísland að Evrópusambandskerfinu. Það kemur ágætlega fram í nefndaráliti hv. þingmanns og minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Mig langar að spyrja þingmanninn út í það sem komið hefur fram nokkuð víða, m.a. í atvinnuveganefnd í morgun, að ESA gengur óvenjuharkalega fram í allri afstöðu sinni til Íslands og fer oft harkalega gegn hagsmunum Íslands, samanber Icesave-málið og við þekkjum líka ýmis mál sem varða Matvælastofnun og hafa verið uppi á borðinu og reyndar fjölmörg önnur mál. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort við séum virkilega að sækja um aðild að Evrópusambandinu og setja um leið allt í uppnám ef við tökum hreinlega ekki við þessum aðlögunarstyrkjum, sem sumir kalla mútufé, og göngum ekki algerlega á hnjánum eftir því sem ESB segir. Erum við þá að setja allt í uppnám varðandi eftirlitsstofnanir eins og ESA?