140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:39]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður rifjaði einmitt upp forsögu málsins sem ég fór ekki nógu vel yfir áðan. Þetta var gert þegar Austur-Evópa fór inn. Eins og við þekkjum þá var Austur-Evrópa undir járnhæl og ógnarstjórn kommúnismans svo áratugum skiptir. Lítið hefur verið rætt um samskipti fyrirrennara ríkisstjórnarflokkanna við þau stjórnvöld en eins og við vitum voru Kommúnistaflokkur Íslands, Sósíalistaflokkurinn og að hluta til Alþýðubandalagið í miklum samskiptum við þessar ógnarstjórnir á sínum tíma. Þetta eru fyrirrennarar bæði VG og Samfylkingarinnar. Við ræðum það ekki mikið hér þó að æskilegt væri að fara yfir þau mál.

Það sem gerðist hins vegar á þeim tíma þegar Austur-Evrópa sótti um aðild að Evrópusambandinu og þekki ég það mjög vel, ég var í miklum samskiptum við ungliðahreyfingar flokka sem voru nýstofnaðir þá, var að þeir gerðu allt hvað þeir gátu vegna þess að þeir voru enn hræddir við nágranna sinn í austri og vildu aðlagast eins hratt og mögulegt var vestur-evrópskum aðstæðum og lýðræðisfyrirkomulagi þar. Aðstæðurnar voru auðvitað allt öðruvísi en hér á landi, allt aðrar. Það er ekki hægt að bera það saman, en þetta er sama módelið.

Hv. þingmaður spyr hvort við setjum allt í uppnám ef við breytum ekki öllum þessum skattareglum til að hægt sé að ganga þarna inn. Ég hef ekki fengið rökin fyrir því. Rök stjórnarliða, þeir hafa að vísu ekki tekið mikinn þátt í umræðunni, hafa fyrst og fremst verið þau að við séum að hagnast svo mikið, með því að breyta skattareglunum komi fullt af peningum hingað inn, sem er í hróplegu ósamræmi við aðrar áherslur ríkisstjórnarinnar í skattamálum.