140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög sérstakt mál. Það sem hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarþingmenn lenda alltaf í vandræðum með er að útskýra að þetta sé eitthvað annað en aðlögunarstyrkir.

Það að vaða í þetta án þess að vera búin að ganga frá forsendum er fullkomlega ábyrgðarlaust. Ef þetta eru ekki aðlögunarstyrkir getum við væntanlega ráðið því hvort við tökum við þessu. Er ekki eðlilegra og sýnir það ekki fyrirhyggju að ganga fyrst frá því í þinginu að hægt sé að taka við þessum styrkjum og sækja þá síðan? Ég mundi ætla að það væri hin eðlilega leið.

Í besta falli er þetta allt kauðslegt, sérstaklega þegar við sjáum þingmenn á Evrópuþinginu agnúast út í það sem þeir telja vera þróunaraðstoð til okkar Íslendinga. Það er ekki alveg í anda þess sem hv. stjórnarþingmenn hafa sagt. Ég hvet alla til að kynna sér hvaða styrkir þetta eru.

Hvað er þetta? Það verður ekki annað séð, jafnágætir og styrkirnir eru, þ.e. ágætisverkefni, en markmiðið sé annars vegar að veita aðlögunarstyrki, þ.e. breyta hlutum á Íslandi áður en við göngum í Evrópusambandið sem við breytum aldrei ef við förum ekki í Evrópusambandið, og hins vegar að bæta ímynd Evrópusambandsins með því að styrkja þróunaráætlun fyrir Eyjafjallajökulssvæðið, bjóða fullorðinsfræðslu og ýmislegt annað sem allir eru sammála um að eru skemmtileg, áhugaverð og góð verkefni en málflutningur stjórnarliða stenst ekki í þessu máli.