140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[19:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eitt atriði í ræðu hv. þingmanns sem mér finnst ástæða til að ræða nánar vegna þess að hann gat þess réttilega að af hálfu Evrópusambandsins er auðvitað litið svo á, eins og fram kom í þeim ágæta bæklingi sem hv. þingmaður vitnaði til, að um sé að ræða aðlögun ríkja að Evrópusambandinu en ekki eiginlegar samningaviðræður milli tveggja jafnsettra aðila. IPA-styrkirnir eru líka skilgreindir sem aðlögunarstyrkir.

Hitt er svo annað mál að það verður að hafa í huga að í mjög mörgum tilvikum eru IPA-styrkirnir veittir til verkefna sem eru í sjálfu sér ekki tengd kjarnastarfsemi Evrópusambandsins eða þeim sviðum sem Evrópusambandið beitir sér helst á heldur oft og tíðum til verkefna sem að minnsta kosti á yfirborðinu virka alls óskyld. Má sjá dæmi um það á þeim lista um IPA-styrki sem fylgir með í einhverju af nefndarálitunum sem fyrir liggja í þessari umræðu að þau verkefni sem ætlunin er að IPA-styrkir renni til hér á landi eru mörg harla fjarlæg aðlögun að Evrópusambandinu.

Ég vil nota þetta tækifæri og koma því að að það er heldur ekkert einsdæmi. Í mörgum ríkjum í Austur-Evrópu þar sem IPA-styrkir hafa verið veittir hafa þeir farið í verkefni sem hafa verið talin líkleg til vinsælda miklu frekar en að þau hafi beinlínis eitthvað með Evrópusambandsaðild að gera. Þeim augum þarf líka að horfa á þessar styrkveitingar.