140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[19:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni í þessum efnum. Mörg af þeim verkefnum sem um er að ræða í landsáætlun IPA eru þess eðlis að þau eru góð og merkileg og áhugaverð og ekki ætla ég að gera lítið úr hlut þeirra stofnana, sveitarstjórna og annarra aðila sem sjá möguleika í þeim til að efla starfsemi sína eða brydda upp á nýjungum, ég ætla ekki að gera lítið úr því.

Ég hef hins vegar, eins og hv. þingmaður, gert athugasemdir við það að við séum yfir höfuð að taka við styrkjum í tengslum við aðildarviðræður sem ég, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, tel að við eigum ekki að vera í. Ég álít að það sé spurning um það að menn séu samkvæmir sjálfum sér, að menn segist ekki í öðru orðinu vera á móti því að við séum í viðræðum við Evrópusambandið og á móti því að ganga í Evrópusambandið en komi síðan og taki glaðir við styrkjum sem eru nátengdir sambandinu og aðildarumsókninni. Það er bara spurning í mínum huga að menn séu samkvæmir sjálfum sér.

Það er ekki alveg sama hvaðan gott kemur. Það er gott að fá fjármagn en ég verð alla vega að segja það fyrir sjálfan mig að ég væri með óbragð í munninum ef ég stæði í þessum sporum og mælti með því að við tækjum við þessum peningum en héldi því fram á sama tíma að ég væri staðfastur í þeirri skoðun minni að við ættum ekki að vera í aðildarviðræðum og ættum ekki að ganga í Evrópusambandið. Ég get ekki skilið það sem annað en tvískinnung.