140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[19:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir vakti máls á áhugaverðri spurningu sem varðar stöðuna á þeim styrkveitingum sem tengdar eru IPA-kerfinu. Það væri gott ef við gætum með einhverjum hætti fengið það upplýst áður en þessari umræðu lýkur. Sú spurning snýr auðvitað að þessu máli almennt, þ.e. IPA-styrkveitingunum og aðlögunarstyrkjunum. Frumvarpið sem hér er til umræðu snýst sérstaklega um skattalegan þátt þess en auðvitað er IPA-málið stærra en svo og víðtækara. Það er hægt að nálgast það þröngt, eins og ég kom inn á í umræðum í síðustu viku mál, út frá nánast skattatæknilegu sjónarmiði og gagnrýna það á slíkum forsendum eins og Félag löggiltra endurskoðenda gerir. Það hefur bent á galla á frumvarpinu út frá skýrleika og slíkum þáttum og er í raun óskiljanlegt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd skuli ekki reyna að bregðast við því.

Ég vakti athygli á því í umræðunni að í nefndaráliti meiri hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd er drepið á þann þátt og þá gagnrýni sem fram hefur komið á að ákvæði frumvarpsins væru óskýr frá tæknilegu sjónarmiði. Meiri hlutinn lætur nægja að segja, með leyfi hæstv. forseta:

„Loks var undirstrikað mikilvægi þess að hugtök skattalaga væru skýr þar sem annars væri hætta á að þeim væri beitt með mismunandi hætti á sambærileg tilvik.“

Og svo ég skjóti inn sjálfur er þarna verið að vísa til gagnrýninnar.

Svo ég haldi áfram, með leyfi forseta:

„Á móti var á það bent að það lægi í hlutarins eðli að skattyfirvöldum væri oft og tíðum eftirlátið að skýra ýmis hugtök í skattframkvæmd.“

Svo er haldið áfram.

Þetta eru einu viðbrögðin við þessari gagnrýni. Ég hefði talið eðlilegt að reynt hefði verið að bregðast við athugasemdunum frá Félagi löggiltra endurskoðenda sem eru tæknilegar athugasemdir, varða ekki meginefni málsins heldur útbúnað þess eða form, og gera ákvæðin skýrari. Verð ég að segja að í þessari umræðu hef ég fram til þessa ekki fengið nein svör við því af hálfu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar hvers vegna ekki var leitast við að gera það, hvers vegna ekki var gerð tilraun til þess að skýra þessi ákvæði þannig að verði þessi löggjöf samþykkt verði skilaboðin frá löggjafanum sæmilega skýr um í hvaða tilvikum á að veita þær skattundanþágur sem hér um ræðir.

Þetta varðar hinn tæknilega hluta, þ.e. að frumvarpið gengur út á skattundanþágur til þeirra aðila sem vinna við framkvæmd IPA-verkefna, gera ESB-samninga á grundvelli slíkra verkefna. Þeir eiga að vera undanþegnir sköttum, bæði beinum sköttum og óbeinum. Í því sambandi hefur sú röksemd hvað helst verið leidd fram að um væri að ræða sambærilegar skattaundanþágur og gilda um sendimenn sem njóta friðhelgi og réttinda samkvæmt Vínarsamningnum.

Eins og ég hef bent á í þessari umræðu, gerði það í síðustu viku og fékk í sjálfu sér ekki svör við heldur, virðast mér þær skattundanþágur sem hér er verið að kveða á um vera töluvert víðtækari en þær undanþágur sem sendimenn njóta, auk þess sem ákveðinn vandi er fólginn í því að láta skattundanþágur af þessu tagi ná til tiltölulega ótilgreinds hóps, verktaka sem gera verksamninga og vinna hugsanlega að öðrum verkefnum samhliða og eru í blandaðri starfsemi eins og kallað er. Það er miklu snúnara en þegar um er að ræða tiltekna ákveðna embættismenn með sérstakt skipunarbréf upp á stöðu sína því að skattundanþágur samkvæmt Vínarsamningnum ná eingöngu til slíkra einstaklinga og síðan til sendiráðanna eða sendiskrifstofanna sem slíkra. Ég held því að með þeirri útvíkkun sem farið er út í með þessari löggjöf sé farið töluvert fram yfir þau mörk sem lesa má út úr Vínarsamningnum og lögum sem byggja á þeim alþjóðlegu samningum og það skapar ákveðinn vanda eins og ítrekað hefur verið bent á.

Þetta eru þau atriði, hæstv. forseti, sem ég vildi við upphaf þessa annars hluta þessarar umræðu benda á og varða þetta skattafrumvarp sérstaklega. Það er síðan ástæða til þess, þó að ég ætli ekki að fara yfir það í löngu máli, að gera athugasemdir við þá stefnu sem felst í því að Ísland eigi að leita eftir styrkveitingum frá aðila sem það á í samningaviðræðum við. Við í þessum sal höfum auðvitað mismunandi skoðanir á því hvort við eigum að vera í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og margir hafa fært rök fyrir því einmitt núna allra síðustu daga að þar ríki aðstæður sem kalli á endurskoðun þeirrar ákvörðunar að sækja um.

Aðstæður bæði innan lands og í Evrópu hafa breyst verulega frá sumrinu 2009 og segja má að hið pólitíska andrúmsloft hér innan lands hafi að mörgu leyti breyst líka. Fyrir okkur sem höfum alla tíð verið andvíg því að við sæktum um aðild að Evrópusambandinu og gengjum í það, eru auðvitað mjög góð rök til þess að aftur verði látið á það reyna í þinginu hver vilji þingsins er raunverulega í þeim efnum, hvort vilji þingsins standi til þess að halda áfram á sömu braut eða að endurskoðun fari fram á þeirri ákvörðun sem var tekin sumarið 2009 með meiri hluta sem deila má um hvort endurspeglaði raunverulegan hug allra sem kusu í þinginu

Hæstv. forseti, þetta er eitt. IPA-málið er hluti af aðlögunar- eða aðildarferlinu og ég á bágt með að sjá að menn geti með góðu móti verið andvígir aðildarferlinu en fylgjandi IPA-styrkjunum. Mér finnst einhver tvískinnungur í því eins og ég kom inn á í andsvörum við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson fyrr í kvöld. Það má segja að sú umræða eigi kannski frekar að eiga sér stað undir næsta dagskrármáli sem er þingsályktunartillaga um rammasamninginn en mér finnst þó samhengisins vegna nauðsynlegt að taka það með í þessa umræðu. Þegar við veltum fyrir okkur réttmæti þess að veita skattundanþágur vegna verkefna sem tengjast IPA-styrkjunum þurfum við auðvitað líka að velta fyrir okkur réttmæti þess að Ísland sé að leita eftir slíkum styrkveitingum.

Ég vildi, hæstv. forseti, ljúka ræðu minni með því að segja að í raun og veru finnst mér miklu brýnna fyrir Alþingi Íslendinga að taka umræðu um hvort endurskoða eigi ákvörðunina um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Ég held að það séu miklu sterkari rök fyrir því að taka þá ákvörðun til endurskoðunar sem tekin var fyrir næstum þremur árum í ljósi breyttra aðstæðna og í ljósi breyttra pólitískra strauma innan lands sem annars staðar, miklu frekar en að festa okkur enn frekar í aðildarferlinu með því að bindast Evrópusambandinu þeim böndum sem þessar styrkveitingar leiða til.