140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að ræða hér okkar í millum, frammi og annars staðar, hver sé í raun tilgangurinn með því að keyra þessi mál í gegnum þingið. Það er mjög umdeilt, svo ekki sé meira sagt, hvernig hitt málið, þingsályktunartillagan, var tekið út úr utanríkismálanefnd og við ræðum það þegar þar að kemur. Hv. þingmaður hefur farið yfir þessa styrki og þær vangaveltur sem tengjast þeim og ég verð að segja að enn þá standa eftir þessar spurningar: Hvers vegna er svo mikil áhersla lögð á þessa aðlögunarstyrki? Hvers vegna eru þeir hluti af ferlinu? Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvort það geti verið afleiðing af því að eftir að Norðmenn felldu síðast samning um að ganga inn í Evrópusambandið, breytti Evrópusambandið um taktík. Getur verið að IPA-styrkirnir hafi verið teknir upp í framhaldinu — reyndar ekki alveg beint í framhaldi, ef ég man rétt — til að reyna að tryggja að ekki færi aftur svo að eitthvert ríki mundi fella, með mikilli háðung fyrir Evrópusambandið, að ganga í sambandið?

Annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í er um muninn á Íslandi og til dæmis gömlu austantjaldslöndunum, ef við notum það orðalag, sem voru búin að lifa mjög lengi í skugga og undir hæl Sovétríkjanna og voru langt á eftir Evrópulöndum í flestöllum þáttum, svo sem í mannréttindum, tækni og þróun. Getur verið að þessir styrkir hafi mögulega átt heima þar en eigi hreinlega ekki við hjá Íslendingum?