140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef mig misminnir ekki er svokölluð Evrópustofa fjármögnuð af þessum IPA-styrkjum, í það minnsta að hluta til, og ég velti fyrir mér hvernig í ósköpunum það geti tengst því sem fram kemur um hlutverk styrkjanna varðandi umbætur og annað. Í áðurnefndum bæklingi eða upplýsingablaði frá Evrópusambandinu um IPA-styrki kemur fram m.a., með leyfi forseta, í lauslegri þýðingu að þessir styrkir eigi að styrkja lýðræðislegar stofnanir og lagaumgjörð, koma að bættri opinberri stjórnsýslu, efnahagsumbótum, stuðla að virðingu fyrir manninum og réttindum minnihlutahópa, jafnrétti, þróun samfélagsins o.s.frv. Síðan segir hér líka að með þeim eigi að stuðla að minnkun fátæktar.

Ég fæ ekki séð, frú forseti, í það minnsta út frá þessum texta um hlutverk IPA-styrkjanna, að á Íslandi sé margt sem falli beint undir þetta. Það sem mér leikur kannski mest forvitni á að vita núna er hvort það sé rétt munað hjá mér að svokölluð Evrópustofa sé fjármögnuð að hluta til af IPA-styrkjum. Ég get þá ekki mátað það við þennan texta hér.

Eins og fram hefur komið held ég að flestir séu að átta sig á því að þetta tæki sem IPA-styrkirnir svokölluðu eru, er tæki til að aðlaga samfélagið í aðildarferli að því sem fyrir er í Evrópu.