140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:41]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason verður seint sakaður um að hafa ekki staðið vörð um stefnu Vinstri grænna í þessu máli. Það er hárrétt að VG beitti sér mjög hart gegn þessu máli fyrir síðustu kosningar. Það gerði líka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og formaður Vinstri grænna, sem sagði í sjónvarpsviðtali kvöldið fyrir kosningar að það yrði ekki sótt um aðild að Evrópusambandinu á þessu kjörtímabili, ekki með hans stuðningi. Þetta sagði formaður Vinstri grænna, þáverandi hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, kvöldið fyrir kjördag.

Það er hárrétt að hv. þm. Jón Bjarnason hefur einarðlega barist gegn þessu og gerði það þegar hann var ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, enda urðu Evrópusambandið og Samfylkingin að losna við hann. Evrópusambandið krafðist þess að honum yrði hent úr ráðherrastól. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér á hvaða vegferð hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon er með Vinstri hreyfinguna – grænt framboð.

Hv. þm. Jón Bjarnason nefndi hér flokksráðsfund þar sem ályktað var gegn þessum styrkjum, þar sem ályktað var að ekki ætti að taka við styrkjum til aðlögunar og það ætti ekki að fara nein aðlögun fram. Nú er sú aðlögun hafin af fullum þunga og nú er verið að taka við þessum styrkjum og í ofanálag er verið að veita skattafslátt fyrir þeim. Það væri fróðlegt að sjá hvað þessi ágæti flokksráðsfundur hefði sagt um það.

Hvað vakir fyrir hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni? Á hvaða vegferð er hann í þessu máli? Ég hallast einna helst að því að undir yfirborðinu blundi ESB-sinni í honum, en það verður seint sagt um þann hv. þingmann sem hér veitti andsvar, Jón Bjarnason, því að hann hefur staðið einarðlega í fæturna í þessu máli.