140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau voru athyglisverð orðaskiptin sem áttu sér stað á milli hv. þingmanna Jóns Bjarnasonar og Ásmundar Einars Daðasonar. Ég er sammála því sem hefur komið hér fram að þegar þingsályktunartillagan um aðildarumsóknina var samþykkt 2009 held ég að það hafi legið fyrir að til þess að geta sótt um þessa styrki og tekið við þeim þyrfti að gera breytingar. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni og í andsvari að reynt hefði verið að dylja það og jafnvel hafi staðið til af hálfu ríkisstjórnarinnar að taka við þessum styrkjum þó svo að hún hefði ekki til þess lagaheimild.

Því vil ég spyrja hv. þingmann um það sem kemur fram í landsáætlun að hugsanlega hafi einhverjir styrkir verið greiddir út á árinu 2011, ég kallaði einmitt eftir svörum við því í fyrri ræðu minni, og hvort jafnvel sé hugsanlegt að búið sé að greiða einhverja styrki út á árinu 2012 áður en búið er að samþykkja frumvarpið, eins og hv. þingmaður benti rækilega á.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann um þann tvískinnung hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem hann kom inn á í ræðu sinni. Ég held að það séu einungis örfáir þingmenn Vinstri grænna sem halda að þeir geti í raun og veru þrætt fyrir að við séum í aðlögun, ég held að það dyljist engum að það er ekki lengur hægt. Mig langar að bera eftirfarandi setningar í meirihlutaáliti frá efnahags- og viðskiptanefnd undir hv. þingmann, en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Markmið aðstoðarinnar er að auðvelda ríkjunum að uppfylla skilyrði aðildar með uppbyggingu stofnana, eflingu milliríkjasamstarfs og styrkingu efnahagslegrar og félagslegrar þróunar sem og byggðaþróunar. “

Síðan segir í framhaldi:

„Fram hefur komið að innan nefndarinnar jafnt sem utan eru skoðanir ólíkar hvað þetta markmið varðar.“

Er þetta ekki merki um enn einn tvískinnunginn og feluleikinn um hvert markmiðið er í raun með því að samþykkja það að sækja um og taka við þessum styrkjum?