140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að það hefði liðið ár frá því að ákveðið var að byrja að sækja um þessa styrki þar til að frumvarpið er lagt fram sem í raun heimilar það að sækja um þessa IPA-aðlögunarstyrki. Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvern er verið að plata? Við vitum að það er búið að vera að reyna að plata þjóðina alllengi með því að halda því fram að þetta feli í sér að kíkja í pokann, þetta séu aðildarviðræður en ekki aðlögunarviðræður, sem þær eru náttúrlega alveg klárt. Þá vaknar önnur spurning: Er hugsanlega líka verið að reyna að blekkja Evrópusambandið með því að sækja um þessa styrki og hafa ekki fyrir því heimild og jafnvel hafa tekið við þeim án þess að það sé heimild til þess? Eins og hv. þingmaður benti á væri kannski eðlilegra að ræða þetta í annarri röð, þ.e. þingsályktunartillöguna á undan því frumvarpi sem við erum með núna, þar sem þá liggur fyrir samþykki Alþingis. Ef þingsályktunartillagan verður samþykkt er heimild til að sækja um styrkina og síðan yrði þá að samþykkja frumvarpið. Það er hægt að taka undir með hv. þingmanni að þetta er ekki eðlileg forgangsröð.

Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans og það fer ekkert á milli mála að þessir styrkir eru ætlaðir til þess að laga stofnanakerfið að Evrópusambandinu, þetta eru bara aðlögunarstyrkir. Síðan koma smávegis orðaskýringar eftir á, eins og svo oft áður, um að ekki líti allir á það þannig. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Er það ekki alveg skýrt hjá hv. þingmanni að það er krafa Evrópusambandsins og markmiðið með því að veita þessa styrki að verið sé að laga regluverkið, stofnanakerfið og stjórnsýsluna að Evrópusambandsreglunum? Fer nokkuð á milli mála að þetta er aðlögun og ekkert annað?