140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er klár aðlögun sem hér liggur fyrir og birtist nú tæpum þremur árum eftir að umsóknin var lögð fram. Meðal annarra fór ég og að mig minnir hv. þm. Ásbjörn Óttarsson yfir það hér sumarið 2009 að reglur Evrópusambandsins væru á þann hátt að sækti ríkið um aðild að Evrópusambandinu hæfist þá þegar aðlögunarferlið. Þessu var hafnað. Ég var talin fara með fleipur, sagt til dæmis að ég hefði ekki kynnt mér málefni Evrópusambandsins nógu vel og að ég væri með einhverja Evrópusambandsgrýlu til að hræða þjóðina.

Það er óþolandi að þremur árum seinna skuli þetta kom hér fram sem þingmál þegar þetta var vitað alla tíð. Þess vegna spyr ég í kjölfar dóms landsdóms: Hver er ábyrgð hæstv. utanríkisráðherra þegar hann hylmir yfir með Evrópusambandinu með þessar upplýsingar? Hvers vegna hefur þessi ráðherra staðið í þinginu í þessum ræðustól og beinlínis sagt ósatt? Ef til vill vegna þess sem hv. þingmaður fór hér yfir, það er kannski verið að reyna að blekkja Evrópusambandið, en hæstv. utanríkisráðherra getur ekki blekkt landsmenn því að þeir eru mjög vel upplýstir um þessi mál. Það er ekki hægt að segja það sama um þingmenn Samfylkingarinnar sem töluðu hér í morgun undir liðnum um störf þingsins þegar þeir virðast ekki átta sig á því út á hvað Evrópusambandið gengur.

Ég vil líka benda á orð hæstv. innanríkisráðherra frá í gær, hann telur að þetta sé alversti tíminn til að vera í umsóknarferli eða að gangast eftir því við Evrópusambandið að komast þar inn. Ég vona (Forseti hringir.) að ráðamenn í Brussel hafi fengið að hlýða á þessi orð í enskri þýðingu eða franskri svo þeir viti raunverulega að það er enginn stuðningur við málið hér á landi (Forseti hringir.) og ef til vill getur það gerst, herra forseti, að Evrópusambandið sendi bara umsóknina til baka.