140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa spurningu vegna þess að ég kom aðeins lítillega að því í þessari ræðu minni en fór vel yfir það í fyrstu ræðu minni hér um daginn. Okkur er nefnilega talin trú um að einstaklingar á EES-svæðinu eiga að njóta algjörs jafnræðis í rétti sínum til fjórfrelsisins. Þess vegna er afar einkennilegt að það skuli vera gefin þessi undanþága fyrir aðila innan Evrópusambandsins og verktaka en íslenskir verktakar og íslenskt starfsfólk hafi ekki þessa undanþágu. Þetta er forkastanlegt. Þarna er verið að elítuvæða þessa styrki þannig að segja má að það sé nánast útilokað fyrir íslenska aðila að vinna verk sem þessir styrkir eiga að borga upp.

Það allra versta við þetta, og sem mér finnst mjög ógeðfellt og sýna að ríkisstjórnin er tilbúin að leggjast í duftið fyrir Evrópusambandið, er á blaðsíðu 19 í þingsályktunartillögunni sem við áttum að sjálfsögðu að ræða á undan. Þar kemur fram að Ísland skuli verja friðhelgi aðila Evrópusambandsins í málarekstri eða stjórnsýslumáli fyrir rétti, dómstóli eða á stjórnsýslustigi á Íslandi og taka afstöðu þar sem eðlilegt tillit er tekið til hagsmuna Evrópusambandsins.

Þetta þýðir að ef Íslendingur eða íslenskt verktakafyrirtæki ætlaði að leita réttar síns á þessari mismunun sem hv. þingmaður fór yfir í fyrirspurn sinni grípur íslenska ríkið til varna fyrir Evrópusambandið og rekur rétt þess hér á landi og ber skylda til þess að gæta hagsmuna Evrópusambandsins. Ég get ekki sætt mig við að það sé komið inn í samning milli Evrópusambandsins og ríkisstjórnar Íslands að ríkisstjórninni er gert skylt að fara með hagsmuni (Forseti hringir.) Evrópusambandsins í stað þess að gæta íslenskra hagsmuna.