140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég svari afgerandi síðustu spurningu hv. þingmanns, hvaða álit ég hef á hagstjórninni, þá hef ég svo sem ekki mikið álit á henni og hef ekki legið mikið á þeirri skoðun minni.

Hv. þingmaður spyr líka hvort þetta mál hafi komið til umfjöllunar í hv. fjárlaganefnd. Svo er ekki því að lög sem snúast um skatta og gjöld, þ.e. sem hafa áhrif á ríkissjóð með breytingum á skattalöggjöfinni, fara alltaf í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd. Þau mál fara þeim megin í gegnum þingið. Ég geri engar athugasemdir við það.

Svo var það líka samþykkt við fjárlagagerðina fyrir árið 2012 að þessar 596 milljónir, sem eru IPA-styrkir, yrðu settar þar inn og lá það fyrir. Þeir sem samþykktu frumvarpið samþykktu að tekið yrði við þessum IPA-styrkjum.

Mig langar aðeins að halda áfram í sambandi við þessar reglugerðarheimildir ráðherra sem ég er mjög ósáttur við og eru alltaf að þróast meira og meira í þá átt að verið er að útvíkka þær, alveg sama hvaða mál við erum að fjalla um. Við nefndum í andsvörum, ég og hv. þm. Sigurður I. Jóhannsson, það sem snýr að sjávarútvegsfrumvörpunum sem búið er að fjalla um. Mig langar að rifja eitt atriði upp án þess að fjalla um þá vitleysu sem snýr að því að hæstv. ráðherra geti sett reglugerð um nánast hvað sem er og það er þegar svokallaðar strandveiðar voru samþykktar. Þá spurði ég undir liðnum störf þingsins ákveðna hv. þingmenn, sem höfðu mikla trú á strandveiðum og allt í lagi með það, um misskiptinguna milli svæða, þ.e. sumir fengu bara að veiða í fjóra daga og aðrir veiddu allan mánuðinn af því að ráðherra var gefinn ákvörðunarréttur til að útfæra lögin með reglugerð. Hv. þingmenn lýstu strax miklum efasemdum á árinu 2009 og ætluðu að beita sér fyrir því að þessu yrði breytt. Því hefur ekki verið breytt enn, nú er komið árið 2012. Það segir okkur hvað felst í reglugerðarheimild ráðherra.