140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:52]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður velti einnig fyrir sér þeirri umræðu hvort hér væri um aðlögunarstyrki að ræða eða þróunarstyrki, þ.e. hvers eðlis þessir styrkir frá Evrópusambandinu til Íslands væru. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, þessir styrkir komu til sérstaklega þegar Austur-Evrópulöndin sóttu um aðild að Evrópusambandinu og þá þurfti að hjálpa til við að þróa innra samfélag þeirra til að uppfylla kröfur Evrópusambandsins.

Ég velti fyrir mér hvernig sú umræða sé hér. Við heyrum enn þingmenn segja að þessir þróunarstyrkir, þetta mútufé, séu ekki aðlögunarfé. Hvernig skilgreina menn það annars? Ég minni á að í skýrslu utanríkisráðherra, sem var til umræðu nýverið, skýrslu sem embættismenn hafa skrifað, ekki eingöngu pólitíkusar, er sagt alveg skýrum stöfum á bls. 35 að IPA-aðlögunarstyrkirnir verði veittir til að undirbúa þátttöku í sjóðum stoðkerfa árið 2012 og til uppbyggingar stofnana árið 2013. Getur uppbygging stofnana á Íslandi fyrir þróunarfé frá Evrópusambandinu flokkast undir annað en að það sé gert fyrir aðlögunarfé? Ekki þurfum við að byggja upp þessar stofnanir til að uppfylla regluverk Evrópusambandsins ef við ætlum ekki að verða hluti af því. Hvers vegna eru menn svo feimnir við að viðurkenna sannleikann, (Forseti hringir.) þann að þetta er eins konar þróunarfé til Íslands til að laga íslenska stjórnsýslu að Evrópusambandinu?