140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við göngum á eftir til atkvæða um hvort vísa eigi tillögum stjórnlagaráðs til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Ef það verður samþykkt er þetta sögulegur dagur (Gripið fram í.) í þingsögunni og lýðveldissögunni.

Umræðan um þetta mál hingað til hefur ekki verið Alþingi Íslendinga til sóma. (VigH: Segir hver?) (Gripið fram í: Segir hver?) Mig langar að velta því upp við alla alþingismenn að þeir hugleiði það alvarlega að breyta þessum vinnubrögðum með því að reyna að finna aðrar leiðir en málþóf fyrir minni hlutann til að grípa í neyðarhemil og stöðva mál. Sá réttur verður að vera fyrir hendi en hann þarf að vera með einhverjum öðrum hætti en verið hefur hingað til. Hann þarf að vera þannig að Alþingi niðurlægi ekki sjálft sig þing eftir þing eins og gerst hefur að minnsta kosti síðan ég kom hingað inn. (Gripið fram í.)

Ég vona líka að alþingismenn og stjórnmálaflokkar á Íslandi sjái sóma sinn í því að ræða málefnalega við þjóðina í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem verður væntanlega einhvern tímann í haust ef samþykkt verður í dag. (GBS: Hvað með málefnalega við þingið?) Það er skylda okkar að tryggja að almenningur á Íslandi fái aðgengilegar og góðar upplýsingar um innihald þjóðaratkvæðagreiðslna en að ekki sé beitt blekkingum og villandi upplýsingum.

Við erum að stíga skref inn á svæði beins lýðræðis á Íslandi sem við höfum ekki verið á áður (VigH: Er það þjóðaratkvæðagreiðsla?) og það skiptir mjög miklu máli að það svæði sé ekki eyðilagt í upphafi þó að einstökum flokkum eða mönnum hugnist ekki slíkt svæði. (Forseti hringir.) Við verðum að virða það að krafa almennings um beint lýðræði er sterk og skýr og við þurfum að fara þangað. (Gripið fram í: … tillögurétt.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)