140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að skipta um umræðuefni í þessum ræðustól því að ég ætla að ræða um Alþingisreitinn og nánasta umhverfi þessa húss. Ég fagna því að fornleifauppgröfturinn er nú loks hafinn að nýju og útlit fyrir að honum geti lokið í sumar. Þar hafa þegar fundist merkar minjar um fyrstu byggð í Kvosinni og það er mikilvægt að Alþingi sýni því verki og þeim minjum sóma.

Hvað tekur svo við þegar uppgreftri lýkur, frú forseti? Ég vil rifja upp að fyrir liggja áform um byggingu stórs skrifstofuhúsnæðis fyrir þingið á sama stað og fornleifauppgröfturinn fer nú fram. Þar á að reisa hús yfir skrifstofur allra þingmanna og þjónusturými fyrir þingið sem er dreift með starfsemi sína í ótal húsum um alla Kvos.

Ég tel nauðsynlegt að Alþingi breyti um stefnu í þessu máli og ég vek athygli á því að á sama tíma eru uppi mjög umdeild áform um að breyta öðru stórhýsi í nánasta nágrenni þingsins, Landssímahúsinu, í hótel. Ég hvet til þess að Alþingi falist eftir þessu gamla Landssímahúsi, falli frá áformum um nýbyggingu við Tjarnargötu og breyti Landssímahúsinu í skrifstofur fyrir þingið en skipuleggi síðan svæðið við Tjarnargötu upp á nýtt með tilliti til hinna merku fornminja sem þar hafa fundist og möguleikanna á að tengja þá við meðal annars landnámsskálann í Aðalstræti.

Frú forseti. Ég get ekki annað en nefnt það að það hefur valdið mér mjög miklum vonbrigðum hversu ábótavant umhirðu og umgengni á vegum Reykjavíkurborgar um Austurvöll og nánasta umhverfi þingsins hefur verið. Hún hefur verið léleg í vetur og ég hvet til þess að forseti taki aftur upp viðræður við borgarstjórann í Reykjavík um bragarbót þar á. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)