140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í Morgunblaðinu í morgun var haft eftir Runólfi Ágústssyni, sem þekkir vel þau mál sem hér er um fjallað, að áætlaður kostnaður vegna atvinnuleysis undanfarin ár væri einhvers staðar á bilinu 200–300 milljarðar. Þetta eru gríðarháar tölur, frú forseti, og setja í skýrt ljós mikilvægi þess að ríkisstjórn og Alþingi geri það að algjöru forgangsmáli að örva alla fjárfestingu og leita allra leiða til að auka atvinnu í landinu. Það hefur gengið of hægt að leysa atvinnuleysið.

Það er líka rétt að hafa í huga að kostnaður vegna gjaldeyrishaftanna vex dag frá degi. Samanlagður beinn og útlagður kostnaður vegna gjaldeyrishaftanna og varasjóðsins sem er til staðar vegna þeirra er frá hruni um það bil 85 milljarðar sem leggjast þá við þann kostnað sem Runólfur Ágústsson og fleiri hafa bent á að sé til kominn vegna atvinnuleysisins. En kostnaðurinn vegna gjaldeyrishaftanna er miklu meiri en bara þeir uppsöfnuðu 85 milljarðar sem eru komnir. Kostnaðurinn er miklu meiri vegna þess að við verðum af fjárfestingum og atvinnulífið allt saman líður fyrir það að hér eru þessi höft.

Sá efnahagsbati sem hefur náðst er fyrst og fremst til kominn vegna þess að gengi íslensku krónunnar féll, vegna þess að sjávarafli hefur aukist og vegna þess að sú ákvörðun var tekin með neyðarlögunum að ríkissjóði yrði ekki fórnað fyrir bankana. En það hlýtur að vera krafa okkar núna að á næstu mánuðum og missirum sjáum við þess stað í störfum þessa Alþingis að forgangsmál ríkisstjórnarinnar og forgangsmál Alþingis alls séu (Forseti hringir.) að koma atvinnulífinu af stað og vinna miklu hraðar að því (Forseti hringir.) að lækka atvinnuleysið. Það er gríðarlega mikilvægt, virðulegi forseti.