140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Margt hefur verið skrafað í þessum stól í morgun en það vakti sérstaka athygli mína að hv. þm. Þór Saari kom hingað og lýsti ást sinni á því fyrirkomulagi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég er fylgjandi því að nota það úrræði meira og þann valkost í samfélagi okkar. Þegar ráðist er í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu verður hins vegar að vanda til verka, að öðrum kosti hefur það í för með sér þær afleiðingar að almennir kjósendur missa trú á þessu tæki til að leiða fram skoðanir þjóðarinnar og í því máli sem hér liggur fyrir þinginu er ekki vandað til verka að mínu mati.

Það vekur sérstaka athygli mína að sá sami hv. þm. Þór Saari sem fjallaði í heilar tvær mínútur um það hversu mikilvægt þetta mál væri kvaddi sér aldrei hljóðs í umræðunni um þetta mikla mál á öllum þeim tímum og þingfundum sem það var til meðferðar. Það lýsir því kannski í hnotskurn að menn hafa ekki meiri áhuga á málinu en svo.

Í öðru lagi langar mig að ræða aðeins um þá tillögu sem liggur fyrir þinginu um þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið og áframhald þeirra aðildarviðræðna sem við erum í. Auðvitað væri langbest fyrir alla hér að við mundum einfaldlega draga umsóknina til baka. Það er mín skoðun. Hins vegar er rétt nú að láta reyna á vilja þjóðarinnar til þess hvort haldið skuli áfram og þess vegna mun ég styðja þá tillögu. Það vakti líka sérstaka athygli mína að hv. þm. Baldur Þórhallsson hélt hér fram að við hefðum alltaf náð fram öllum okkar markmiðum í samningum við aðrar Evrópuþjóðir. Það lá í orðunum að vissulega mundum við gera það hér líka. Þetta mál er hins vegar öðruvísi vaxið vegna þess að bak við þessa umsókn er engin sannfæring. Það eru ekki nema einstaka þingmenn Samfylkingarinnar sem vilja ganga í Evrópusambandið. Aðrir þingmenn hafa lýst því yfir að þeir séu því andsnúnir (Forseti hringir.) og þess vegna er engin sannfæring á bak við þá umsókn og það aðildarferli sem hér er í gangi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)