140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég hef mátt sitja undir því í dag að vera borinn röngum sökum af tveimur þingmönnum. Mig langar að lesa upp tillögu til þingsályktunar um meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga, þ.e. upphaf að þeirri tillögu sem við munum greiða atkvæði um í dag. Flutningsmenn eru sá er hér stendur, Róbert Marshall, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þráinn Bertelsson, Guðmundur Steingrímsson og Davíð Stefánsson. Ég er flutningsmaður þeirrar tillögu sem verið er að ræða um, og að koma upp og halda því fram að ég hafi ekki tjáð mig í málinu (VigH: Ekki hver þú ert, heldur …) er einfaldlega alrangt og þingmenn ættu að reyna að leggja á minnið það sem gerist í þingsal. (VigH: Það er ekki nema von.) Það er ekkert fleira um það að segja.