140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:10]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur lagt mikla vinnu í þetta mál og bak við liggur mikið starf stjórnlagaráðs, sérfræðinganefndar og fleiri aðila. Alþingi hafði þegar ákveðið að þetta mál skyldi borið undir þjóðina í ráðgefandi atkvæðagreiðslu en langar umræður hafa fram að þessu komið í veg fyrir að Alþingi gæti tekið afstöðu til þess hvenær sú kosning færi fram.

Ég mun styðja tillögur meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til að greiða götu þessa máls á grundvelli þeirrar vinnu sem lögð hefur verið í það og leggjast gegn öllum breytingartillögum, hvort sem þær snúa að því eins og í sumum tilvikum að gera að gamni sínu í spurningum eins og formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, gerir eða að blanda algerlega óskyldum málum inn í þessa kosningu sem eiga þar ekki heima og eiga að afgreiðast með sjálfstæðum hætti. Ég mun taka einfalda línu í þessu, frú forseti, sem mér finnst sjálfgefin, styðja tillögur meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en fella aðrar breytingartillögur.